Föstudagur, pizza, bíó og disney show

Hæ,

Sit hérna pakksaddur eftir pizzu og popát. Börnin gláptu á Disney showið og einhvern skemmtiþátt sem kallast Scenen er Din og gengur út á það að það eru tveir sem keppa í hverjum flokki: Barnasöngur, dans, "skemmtiatriði" sem má vera frjálst og svo síðast eru fullorðnir sem reyna með sér í söng. Alveg ágætis danskt sjónvarp.
Núna sit ég hérna með innvortis blæðingar og gott ef ekki að það er farið að blæða úr eyrunum og glápi á afar slæma mynd sem ríkisstjóri Kaliforníu lék í. Spurning hvort að orðið "lék" eigi við hann að minnsta kosti var staddur fyrir framan myndavélina drjúgan part. Myndin heitir 6th day eða Sjötti dagurinn og er væntanlega einhver biblíuvísun en ég neita því ekki að ég glápi nú samt.

Langt síðan ég bloggaði og ég hef í raun og veru ekkert bloggað af viti í langan tíma. Hef svo sem ekkert mikið að segja. Er að lesa undir upptökupróf í einu fagi sem ég aulaðist til að falla í á síðustu önn og svo er ritgerðarvinnan svona að komast á skrið.

Börnin mín komu til mín á miðvikudag og við erum búin að hugga okkur duglega. Fórum á kaffihús á miðvikudaginn sem var verulega ljúft og skemmtilegt. Á fimmtudag skelltum við okkur í safn sem kallast Naturama. Þar var hægt að sjá uppstoppuð dýr af lofti, láði og legi. Matthías var nú ekkert allt of hrifinn fyrst og ríghélt í mig þegar við gengum framhjá ansi hraustlegri uppstoppaðri útgáfu af skógarbirni. En svo var pilturinn kominn á skrið og nálægt því að rústa margra mánaða yfirvinnu starfsmanna safnsins. Maður þarf að vakta piltinn betur en nokkuð annað. Svo bráðnar maður þegar hann brosir til manns. Alexander og Dísa nutu sín á safninu líka, en fannst ekkert slæmt að fá smá kökusneið líka hehe.

Jamm í dag fór svo Alexander í afmæli til bekkjarsystur sinnar, Natasha, og fékk þar brunsviger sem hann elskar af öllu hjarta. Brunsviger er Fjónskt fyrirbæri og í raun ekkert annað en svona svipað deig og er í snúðum heima á Íslandi en með súkkulaðibráð ofan á. Ægilega gott og örugglega meinhollt.

Síðasta mánudag fórum við Sólrún saman til Ikea í Árósum því Ikea hér í Odense er alveg hrikalega lélegt. Þar er úrvalið svo lélegt að þeir gætu allt eins haft ljósmynd og leiðbeiningar til Árósa eða Köben. Anyway, til Árósa fórum við og ég verslaði mér eitt og annað þar á meðal einfalt borð sem ég nota sem skrifborð. Hef ekki haft skrifborð og verið að læra á stofuborðinu og einhvern veginn voru hlutirnir aldrei á vísum stað. Það ætti að vera í lagi núna.

Á morgun og sunnudag er svo sem ekkert planað en ég ætla að reyna að vera sem mest úti með börnunum.

Næsta vika verður svo þannig að ég fer til Árósa á mánudag að spjalla við fyrirtækið sem ég krota verkefnið mitt fyrir og svo leggst ég undir feld og les undir upptökuprófið sem er næsta föstudag. Ég held að ég skáli í öl þar á eftir.

Svo kem ég til Íslands í viku frá 14. mars (afmælisdegi Steina vinar og já daginn eftir að Raggi vinur á afmæli) til 21. mars (afmælisdagur Védísar dóttur Steina og ef ég er ekki að muna vitlaust þá átti Amma Marta afmæli líka þá. Ég þarf þó að athuga það). Ég hlakka geðveikt til að koma á klakann og þarf verulega á því að halda núna. Hef verið alveg ægilega þyrstur eftir Klakanum.

Jæja annað var það nú ekki. Allt svona við það sama og bara hef það alveg ágætt.

kveðja,

Arnar Thor

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Hæhæ
Hlökkum til að hitta þig. Þurfum að leggjast yfir dagsetningar, vill svo "skemmtilega" til að Raggi er að fara til London 17-20 mars.
kv Munda
Nafnlaus sagði…
Hæ hæ kallinn ertu búinn að ná þér af fyrirtíða spennunni????????
Nafnlaus sagði…
Þú verður alveg endilega að kíkja aðeins á okkur þegar þú mætir á klakann, söknum þín alveg helling :)

kveðja Arna Sif (skoða oft bloggið þitt en er algjör dóni, maður kvittar aldrei fyrir sig)

Vinsælar færslur